12.9.2007 | 22:28
Flottur leikur
Vá það er nú frekar langt síðan ég skrifaði eitthvað síðast, en það eru dagar eins og þessi sem maður verður bara að koma með eitthvað.
Horfði á leikinn áðan flottur leikur hjá strákunum og það var mergjað að sjá Hermann, honum langaði sko að vinna þennan leik og ætlaði að gera allt til í þeim leiðangri.
Það er samt alltaf eitt sem pirrar mig við þessa landsleiki og það er ekki liðið það eru þeir sem eru að lýsa leiknum. Eiður kom inn á undir lok leiksins og það var gaman að sjá hann sparka í bolta aftur, en mér finnst fréttamennirnir gera allt of mikið úr honum, ,, við eigum sko tromp á hendi þegar okkar besti leikmaður er ennþá á bekknum", ,,kóngurinn er kominn inn á". Hvað er með þetta og líka að segja að hinir leikmennirnir treysti um of á hann. Pirraði mig all svakalega þegar fréttamaðurinn sagði að Grétar Steins hefði ekki skallað boltann svona ef Eiður væri ekki inn á, ef hann væri ekki að reyna að koma boltanum eins fljótt á hann og mögulegt væri. Efast einhvernvegin um það að Grétar eða hvaða leikmaður sem það nú er hugsi eitthvað út í það.
Annars fannst mér gaman að horfa á þennan leik og var maður með smá í maganum undir lokinn og þá fannst mér frábært að tileinka Ásgeiri Elíassyni sigurinn, átti hann það svo sannarlega skilið.
Ánægður með baráttuna og úrslitin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 15:03
Kosningarnar halda áfram
Þessu er ekki öllu lokið þó svo að almenningur sé búinn að kasta atkvæði sínu.
Kosningarnar voru nokkuð skýrar, Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum og fékk hann 25 menn inn sem þýðir að hann bætti við sig 2.
Sjálfstæðisflokkurinn er því án efa sigurvegari kosninganna sé litið til þess að hann er að bæta við sig fylgi eftir 16 ára setu í ríkisstjórn.
En það voru ekki allir flokkar sem geta fagnað með sama hætti og xD, Framsóknarflokkurinn hlaut hræðilega kosningu og komst maður ekki hjá því að finna til með þeim. Stjórnin hélt velli séu mennirnir einungis taldir en andinn úr xB var farinn. Þeir fóru inn í kosningar með það til hliðsjónar að ef flokkurinn myndi frá slæma kosningu þá væri ekki grundvöllur fyrir því að fara í frekara stjórnarsamstarf og því bar þeim í raun að standa við þau orð sín.
Þetta kemur með vissulega ekki á óvart að ríkisstjórnin haldi ekki áfram en engu að síður læðist það að manni að svo gæti farið að R-lista samstarfi verði komið á, þrátt fyrir það hversu illa Steingrímur J. kemur fram við xB og að mínu mati er það til skammar.
En núna er það bara að bíða og sjá, á Sjálfstæðisflokkurinn og flokkur Samfylkingar samleið, er málefnalegur grundvöllur fyrir því sem og raunhæfur grundvöllur fyrir því að fara í stjórn með þeim? maður veit ekki.
Annað sem er til skammar er hvernig Björn Bjarnason var strikaður út. Björn hefur stuðning minn allan (ekki að hann skipti miklu máli) en tel ég að hann sé hæfur til að gegna öllum þeim stöðum sem hann hefur gengt og hefur hann sinnt þeim með prýði. Menn tala um stöðuveitingar og annað sem núna eiga eftir að koma í ljós - en miða við það sem komið hefur fram þá hefur hann ekki gert neitt rangt - hann fór eftir bókinni. Þá ætti það að segja okkur eitthvað ef lögreglumenn landsins standa við bakið á honum sem og að hann fái góð meðmæli frá því að hann var í menntamálaráðuneytinu. Finnst mér sorglegt að fólk sjái ekki allt það góða sem Björn hefur gert og væri það sorglegt ef hann fengi ekki stöðu í nýrri stjórn eins og hann á fyllilega skilið.
Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.5.2007 | 23:09
Misvísandi kannanir
Jæja gott fólk það er gott sem komið að því.. það er örstutt í kosningar og allir að reyna gera það sem þeir geta til að fá fólk til að kjósa ,,sig" eða sinn flokk.
Líkur eru á því að vinstri stjórn komist á og hvort sem það verður hið margumrædda ,,kaffibandalag" sem inniheldur xV,xS og xF eða hvort að það verði fjórir flokkar sem verða með örlög okkar í hendi sér ef Ómar kemst inn er enn óljóst og mun ekki ráðast fyrr en síðustu tölur koma inn.
Maður er nú samt búin að heyra misjafnar skoðanir frá jafnaðarmönnum hvort að þeir vilji yfir höfuð fara í samstarf með xV .
En ætli maður verði ekki bara að koma inn á það sem xD hefur gert gott á meðan flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn - það er gott að hafa vissar staðreyndir í huga þegar gengið er til kosninga á morgun og vil ég benda fólki á að ef eitthvað af þessum loforðum sem andstaðan hefur gefið upp undanfarið verða að veruleika þá er það vegna þess hve góð staða ríkissjóðs er og það er núverandi stjórn að þakka.
- Tekjuskattur einstaklinga hefur verið lækkaður úr 33,15% árið 1995 í 22,75% í ár, sem er lækkun um 10,4 prósentustig.
- Eignarskattur einstaklinga, sem nam 1,45% af hreinni eign 1995, hefur nú verið felldur niður. Þetta kemur sér ekki hvað síst vel fyrir ellilífeyrisþega.
- Sérstakur tekjuskattur, oft ranglega nefndur hátekjuskattur en var í reynd skattur á millitekjur, hefur verið felldur niður, en hann var 5% árið 1995.
- Persónuafsláttur hjóna hefur nú verið gerður að fullu millifæranlegur í stað þess að vera 80% millifæranlegur 1995.
- Veruleg hækkun skattleysismarka, úr rúmum 58 þúsund krónum árið 1995 í 90 þúsund krónur í ár.
- Skattfrjálst lífeyrisiðgjald hefur farið úr 1,5% 1995 í 8% í dag.
- Barnabætur hafa einnig verið hækkaðar verulega á undanförnum árum. Ótekjutengdar barnabætur námu rétt rúmum 30 þúsund krónum árið 1995 en eru 56 þúsund krónur í ár. Skerðingarmörk barnabóta hafa hækkað um 96% frá árinu 1995 og skerðingarhlutfall hefur verið lækkað. Einnig verða í ár teknar upp greiðslur barnabóta til foreldra 16 og 17 ára barna.
- Lækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 14% í 7%.
- Niðurfelling vörugjalda af matvælum.
- 40% lækkun tolla af innfluttum kjötvörum.
- Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu lækkaður úr 24,5% í 7%.
- Tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%.
Allt þetta hefur komið einstaklingnum vel og auk þess að hafa gert líf almennings bærilegra þá hefur flokkurinn gert góða hluti í heilbrigðismálum þó svo að alltaf sé hægt að gera betur - en það er bara staðreynd að það er alltaf eitthvað sem má laga.
Menntun landsmanna hefur stóraukist á síðustu árum og hefur komið Íslendingum í sterka stöðu út á hinum alþjóðlega markaði - þar sem mörg lönd og fyrirtæki leitast eftir vel menntuðu fólki frá Íslandi.
Horfum á alla þessu góðu hluti sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fært okkur þegar við förum inn í kjörklefann á morgun og hugsum til þess hvað það er sem við erum að kjósa yfir okkur ef við veljum þá leið að ,,prófa" eitthvað nýtt.
Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2007 | 14:10
Stefnir í vinstri stjórn
Við ættum aðeins að hugsa um þetta og meðan við erum að því þá ættum við líka að hugsa aðeins til baka. Þurfum ekki að hugsa svo langt aftur til að við finnum þann tíma þegar ,,hrein" vinstristjórn var við völd hér á landi við getum horft okkur nær eða til þess tíma þegar R-listinn var við völd í borginni. Á þeim tíma fóru útgjöld upp úr öllu valdi fólk vissi hreinlega ekki hvað það átti að gera - hvað var gert jú útsvar hækkaði alveg í hámark. Skattur og aftur skattur.
Þetta og margt fleira sem fylgt hefur vinstri stjórnum mun verða að veruleika ef úrslitin verða þau sömu og nýjustu tölur úr könnun Gallups gefa upp.
En hvað annað getum við átt von á ef við tekur stjórn vinstri flokka? Gera má ráð fyrir því að hugmyndir þeirra hafi ekki mikið breyst síðan þessir sömu flokkar sett sig upp á móti öllum stærstu framfaramálum í íslensku þjóðfélagi. Breytingar í ríkisrekstri, skattalækkanir, árangur í efnahagsstjórnun, hagvöxtur og kaupmáttur, uppbygging í menntakerfinu, EES-samningurinn og opnun markaða fyrir okkur, hefðu ekki orðið ef sjónarmið stjórnarandstöðunnar hefðu orðið ofan á. Það er engin ástæða til að ætla að málflutningur þeirra í ríkisstjórn yrði mikið betri. Hvar stæðum við núna ef þessi stóru skref í viðskipta- og menntamálum hefði ekki orðið að veruleika sem og ef önnur mikilvæg og erfið skref hefði ekki verið tekin?
Fólk talar um að stjórnarflokkarnir eigi að taka sér PÁSU séu þreyttir en það er málið, flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki þreyttur og tekur sér ekki pásu þegar velferð almennings er í húfi.
Hugsum aðeins um þetta
Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2007 | 09:12
Lokaspretturinn
Jæja það þetta fer alveg að skella á 12 maí nálgast og ekki er hægt að komast hjá því að vera með smá hnút í maganum af spenningi.
Hvað eruð þið að hugsa? Ég er að tala um Eika:)..
Nei kannski ekki alveg en það er líka spennó hvernig hann er að fara að standa sig kallinn, búin að senda honum baráttukveðju til Finnlands og vona ég bara að hann komi okkur upp úr þessari forkeppni, er komin með nóg af því að húka þar.
En í mikilvægari mál, það eru 4 dagar þar til við Íslendingar göngum frá því hvaða flokkur og þar með einstaklingar eiga að sjá um að okkur farnist sem best á komandi 4 árum. Mikið hefur verið farið yfir stöðu mála og hefur stjórnarandstaðan verið dugleg að koma með skot sem byggja ekki á neinum staðreyndum. Nýjasta dæmi þess eru ummæli Árna Páls Árnasonar sem er í framboði fyrir Samfylkinguna. En hann vill meina að kaupmáttur hér á landi sé ekkert sérstaklega hár. En þar fer hann eins og hvert mannsbarn ætti að vita vitlaust með tölur. Segir Árni Páll að Sjálfstæðisflokkurinn stundi innistæðulaust kaupmáttargrobb þar sem ekki hafi verið tekið mið af framleiðsluspennu í hagkerfinu þegar kaupmáttur var reiknaður.
Með ýmsum aðferðum, sem ekki verður reynt að rekja hér, kemst Árni Páll að því að þar sem framleiðsluspennan hafi verið svo mikil í hagkerfinu hafi kaupmáttur undanfarinna ára ekki verið nema 3,5%, sem sé svona álíka mikill kaupmáttur og að meðaltali á seinni hluta 20. aldarinnar. Árni Páll virðist þó ekki leiðrétta eldri kaupmáttartölurnar með sömu aðferðum og hann leiðréttir þær nýjustu, en ber þær engu að síður saman. En burt séð frá þessum æfingum sýnir greinin auðvitað fyrst og fremst örvæntingarfullar tilraunir Samfylkingarinnar til að gera þann efnahagslega árangur sem náðst hefur tortryggilegan. Mikil kaupmáttaraukning undanfarinna ára þýðir að almenningur hefur miklu meira milli handanna nú en fyrr.
Staða efnahagslífsins á Íslandi er sterkari en víðast hvar annars staðar og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur óvíða vaxið meira og það kemur vel í ljós hér að Samfylkingin virðist eiga erfitt með að samþykkja þessa staðreynd og gerir hvað hún getur til að koma með skot á xD sem eru í raun ekkert nema púðurskot.
En þar sem ég kom hér áður inn á það að ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi þá kosningu sem tölur í dag sýna eru 13 nýir þingmenn að fara setjast á þing fyrir flokkinn og þar af 7 konur, þetta eru skemmtilegar tölur og er enginn flokkur nálægt því að geta sýnt fram á eins mikla endurnýjun. Borgar Þór kemur inn á það á síðunni sinni hve mikil endurnýjun muni verða á þingliði Samfylkingarinnar og miða við það hve mikil orka hefur farið í það hjá Samylkingunni að bjóða velkomna nýja kynslóð jafnaðarmanna koma þessar tölur manni á óvart.
26.4.2007 | 10:27
Glapræði
Það skemmtilega við pólitíkina er að maður veit aldrei hvað kemur næst og þá á ég sérstaklega við þegar frambjóðendur stjórnarandstöðunnar eru að reyna koma höggi á stjórnina. Það var nú bara síðast í gær sem það gerðist eitthvað óvænt í þeim efnum, en það var þegar Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona VG, sagði í sjónvarpinu að það hefði verið glapræði að einkavæða ríkisbankana og að hún sæi ekki ávinninginn af þeirri breytingu.
Hvar hefur hún verið?..
1993 voru skattgreiðslur bankanna 200 milljónir, en í fyrra námu þær 11,3 milljörðum og þó svo að ég sé ekki búin að taka neitt spes nám til að skilja skatttekjur ríkisins þá hlýtur þetta bara að vera hin ágætasta krónuaukning inn í ríkissjóð, sem hægt er að nota til að gera okkur lífið enn bærilegra.
26.4.2007 | 09:02
Mennt er máttur
Samfylkingin hefur farið víða undanfarna daga og gerir allt til að vinna inn sér inn punkta hér og þar, merkilegt ef það gengur því stór hluti af því sem maður er að heyra frá þeim er bara einfaldlega ekki rétt.
Ágúst Ólafur aka. Ólafur Ágúst eins of hann var oft kallaður á umræðufundi hér í HÍ, leggur alltaf skemmtilegar spurningar fyrir kjósendur, bara ef hann gæti nú svarað þeim rétt. Í fyrradag var mikið rætt um menntamál bæði í sjónvarpi sem og öðrum miðlum, en inn á þennan málaflokk kemur einmitt Ágúst inn á á blogginu sínu og setur þetta í svona skemmtilegan búning með fullyrðingum og svona. Þá spyr hann kjósendur hvort að þeir vilji þá ríkisstjórn sem beri ábyrgð á þessu (þ.e.a.s. hvernig málum sé háttað í menntamálum)
Ágúst Ólafur spyr:
Hvort að fólk vilji ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir því að Ísland er í 21. sæti af 30 helstu iðnríkjum heims þegar kemur að opinberum útgjöldum í háskólana og hvort að fólk sé sátt við það að Ísland sé í 16. sæti þegar borin eru saman opinber útgjöld til framhaldsskóla.
http://agustolafur.blog.is/blog/agustolafur/- 25.apríl
Hljómar allt mjög illa hjá honum, en já hann væri fallinn á þessu prófi þar sem þessar fullyrðingar hans eru bara eins rangar og þær mögulega gætu verið. Í tölum OECD fyrir árið 2003 kemur fram að Íslendingar vörðu 1,4% af þjóðarframleiðslu til háskólastigsins sem er yfir bæði meðaltali OECD og ESB-ríkjanna og vermir Ísland tíunda sætið af þeim 30 þjóðum sem eru mældar. En þá er ekki öll sagan sögð því á síðasta ári uppfærði og birti Hagstofa Íslands tölur um útgjöld hins opinbera til fræðslumála. Auk þess að birta nýjar tölur fyrir árin 2004 og 2005 þá var í fyrsta skipti stuðst við endurskoðaðan staðal (COFOG) við flokkun útgjalda og áður birtar tölur fyrir árin 1998 til 2003 eru endurskoðaðar með hliðsjón af honum. Þarna er því í fyrsta skipti birtar tölur samkvæmt sama staðli og önnur OECD-ríki hafa notað. En vá hvað kemur þá í ljós jú þar kemur það fram að útgjöld til háskólamála á Íslandi voru 1,62% og Ísland komið í fimmta sæti OECD-ríkjanna. Árið 2005 er hlutfallið 1,59%.
Þetta þýðir þó ekki að útgjöldin hafi minnkað, þvert á móti. Eins og kunnugt er hefur landsframleiðsla aukist stórlega á sama tímabili og útgjaldaaukningin heldur varla í við aukningu landsframleiðslunnar.
Þetta eru nýjustu upplýsingarnar, maður fer nú að hafa áhyggjur af þessu, þarf ekki að fara hressa aðeins upp á þau gögn sem Ágúst er að vinna með þar sem þessar tölur sem hann setur fram eru bara ÚRELTAR og þetta er ekki einu sinni eina dæmið um það.
En svar mitt við þeirri spurningu er Ágúst setur fram væri, að ég myndi gjarna og vona að ég muni fá þá ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessu góða gengi og sem styður eins vel við menntakerfið líkt og komið hefur fram hér að ofan.
Til að sýna enn frekar fram á það hve mikil uppbygging hefur verið á sviði menntamál þegar kemur að framhaldsskólastiginu þá mæli ég með að þið farið inn á bloggið hans Gunnars, en hann og fleiri duglegir ugliðar innan xD eru á ferð um austurland og skoðuðu til að mynda Verkmenntarskóla Austurlands í fyrradag, en hann kemur inn á marga góða punkta frá þeirri heimsókn.
kv.
Ásdís Jóna
24.4.2007 | 18:03
Þessi barátta er orðin stór merkileg
Já haldið að það sé:)..
Merkilegt hvað er hægt að gera og það sem fólki dettur í hug.
Núna er búið að taka fyrir xB og vinstri græna og þá hef ég heyrt að það sé búið að gera eitthvað voða fínt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, verður spennandi hvað það verður.. dadara.
Þessi mynd er samt stór skemmtileg og það þarf í raun ekki að láta sér detta í hug breytingu á upprunalega textanum:).. ohhh.. Eigum við ekki bara öll að vera vinur?
24.4.2007 | 14:53
Sterk staða í málefnum aldraðra
Mikið hefur verið komið inn á hve ,,slæmur" flokkurinn hefur verið í vissum málaflokkum og þá sérstaklega þeim sem tengjast einstaklingum er minna meiga sín (held að það hafi verið orðað þannig) - en þar er ég vissulega að hluta til að beina orðum mínum að þessu fína kommenti sem ég fékk í fyrradag.
Það sem hér á eftir kemur er ef nýjum vef xD sem er mjög skemmtilegur og mæli ég með því að fólk skoði hann, hvort sem þú ert meðlimur í xS, xB eða einhverjum öðrum flokk. Síðan er bara flott og það kemur greinilega í ljósa að mikil hefur verið lagt í það að koma henni upp.
Einnig kætir það mitt litla hjarta að mynd af mér í fjörunni heima á Sigló er notuð en ekki sú sem tekin var inn í stofu heima þó svo að hún hafi verið ágæt en það var fyrst og fremst því að þakka að mamma var með á myndinni:).
En njótið:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að tryggja að aldraðir búi við góð lífskjör. Hér hefur verið byggt upp traust lífeyrissjóðakerfi og öllum tryggður ellilífeyrir. Kaupmáttur þess lífeyris sem aldraðir fá frá almannatryggingum hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og aldraðir þannig ekki lent í því sem gerðist t.d. í tíð síðustu vinstristjórnar árin 1988-1991 að lífeyrir þeirra skertist. Aldraðir eins og aðrir njóta þeirra skattalækkana sem orðið hafa undanfarin ár en sérstaklega má þó nefna eignaskattinn sem var afnuminn árið 2005. Hann lagðist sérstaklega þungt á eldri borgara en alls greiddu hátt í 16 þúsund eldri borgarar þennan skatt.
Samstarf og samráð stjórnvalda og samtaka eldri borgara
Ríkisstjórnin hefur leitað eftir samstarfi og samráði við samtök eldri borgara þegar kemur að breytingum á högum þeirra. Út frá slíku samráðsferli var skrifað undir samkomulag stjórnvalda við Landssamtök eldri borgara sumarið 2006 um breytingar á kjörum aldraðra, en í þeim fólst meðal annars að lífeyrir almannatrygginga var hækkaður verulega og dregið úr tekjuskerðingum og tengingu við tekjur maka. Tekið var upp 300 þúsund króna frítekjumark á launatekjur aldraðra. Kostnaður ríkissjóðs við þessar breytingar næstu fjögur árin nemur um 28 milljarðar króna.
Stórlækkaðar skerðingar
Meðal þess sem lögð hefur verið áhersla á er að veita öldruðum sem þess óska aukinn hvata til að vinna og tryggja að atvinnutekjur hafi ekki of mikil áhrif á ellilífeyri. Þannig var skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna lækkað úr 67% í 45% árið 2003 og síðan aftur í tæp 40% um síðustu áramót.
Traust og stöðugt lífeyriskerfi
Íslendingar búa við eitt traustasta og stöðugasta lífeyrissjóðskerfi í heiminum. Það er gríðarlega þýðingarmikið og ólíku saman að jafna við stöðuna hjá mörgum þjóðum sem sitja uppi með gjaldþrota kerfi. Þetta kerfi hefur byggst upp síðustu 30-40 árin og vægi þess í lífeyrisgreiðslum landsmanna hefur sífellt farið vaxandi. Þær kynslóðir sem greiða núna í lífeyrissjóði munu hafa byggt upp umtalsverð réttindi þegar að starfslokum kemur. Það er til marks um styrk íslenska lífeyrissjóðakerfisins að samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna nema samkvæmt síðustu tölum meira en 130% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall er með því hæsta sem þekkist og t.d. mun hærra en hjá Norðmönnum sem hafa þó olíusjóðinn sem var m.a. byggður upp til að mæta auknum útgjöldum vegna fjölgunar ellilífeyrisþega á næstu áratugum.
Komið enn frekar til móts við óskir eldri borgara
Í ljósi sterkrar stöðu ríkissjóðs er unnt að ganga lengra í að koma til móts við óskir eldri borgara, sérstaklega þann hóp eldri borgara sem stendur höllustum fæti. Ennfremur viljum við veita þeim sem þess óska svigrúm til að vinna lengur með því að draga úr skerðingum. Þannig vill Sjálfstæðisflokkurinn að:
Almennar skerðingar í almannatryggingakerfinu lækki úr tæpum 40% í 35% og að skerðingar vegna lífeyrisgreiðslna verði endurskoðaðar.
Bæta kjör þeirra ellilífeyrisþega sem verst eru settir fjárhagslega um því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum að lágmarki 25.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði til hliðar við greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Tryggja að eldri borgarar sem vilja og geta tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin
Að í boði séu mismunandi þjónustukostir til að mæta einstaklingsbundnum þörfum en í því skyni verði meðal annars leitað samstarfs við sjálfstæða aðila, t.d. hjúkrunarheimili og í heimaþjónustu og heimahjúkrun.
Leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu við eldri borgara
Opna möguleika á eigin fjármögnun eldri borgara á húsnæði sínu á hjúkrunarheimili.
Færa þau málefni aldraðra sem hafa verið á hendi ríkisins yfir til sveitarfélaganna og efla heimaþjónustu við aldraða meðal annars með samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu
Að eftirlifandi maki/sambúðarmaki haldi við fráfall ellilífeyrisþega óskertum lífeyri hins látna í 6 mánuði sem skerðast þá í áföngum og falli niður að 12 mánuðum liðnum.
kv.
Dísin