Sterk staða í málefnum aldraðra

Mikið hefur verið komið inn á hve ,,slæmur" flokkurinn hefur verið í vissum málaflokkum og þá sérstaklega þeim sem tengjast einstaklingum er minna meiga sín (held að það hafi verið orðað þannig) - en þar er ég vissulega að hluta til að beina orðum mínum að þessu fína kommenti sem ég fékk í fyrradag.
Það sem hér á eftir kemur er ef nýjum vef xD sem er mjög skemmtilegur og mæli ég með því að fólk skoði hann, hvort sem þú ert meðlimur í xS, xB eða einhverjum öðrum flokk. Síðan er bara flott og það kemur greinilega í ljósa að mikil hefur verið lagt í það að koma henni upp.
Einnig kætir það mitt litla hjarta að mynd af mér í fjörunni heima á Sigló er notuð en ekki sú sem tekin var inn í stofu heima þó svo að hún hafi verið ágæt en það var fyrst og fremst því að þakka að mamma var með á myndinni:).

En njótið:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að tryggja að aldraðir búi við góð lífskjör. Hér hefur verið byggt upp traust lífeyrissjóðakerfi og öllum tryggður ellilífeyrir. Kaupmáttur þess lífeyris sem aldraðir fá frá almannatryggingum hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og aldraðir þannig ekki lent í því sem gerðist t.d. í tíð síðustu vinstristjórnar árin 1988-1991 að lífeyrir þeirra skertist. Aldraðir eins og aðrir njóta þeirra skattalækkana sem orðið hafa undanfarin ár en sérstaklega má þó nefna eignaskattinn sem var afnuminn árið 2005. Hann lagðist sérstaklega þungt á eldri borgara en alls greiddu hátt í 16 þúsund eldri borgarar þennan skatt.

Samstarf og samráð stjórnvalda og samtaka eldri borgara
Ríkisstjórnin hefur leitað eftir samstarfi og samráði við samtök eldri borgara þegar kemur að breytingum á högum þeirra. Út frá slíku samráðsferli var skrifað undir samkomulag stjórnvalda við Landssamtök eldri borgara sumarið 2006 um breytingar á kjörum aldraðra, en í þeim fólst meðal annars að lífeyrir almannatrygginga var hækkaður verulega og dregið úr tekjuskerðingum og tengingu við tekjur maka. Tekið var upp 300 þúsund króna frítekjumark á launatekjur aldraðra. Kostnaður ríkissjóðs við þessar breytingar næstu fjögur árin nemur um 28 milljarðar króna.

Stórlækkaðar skerðingar
Meðal þess sem lögð hefur verið áhersla á er að veita öldruðum sem þess óska aukinn hvata til að vinna og tryggja að atvinnutekjur hafi ekki of mikil áhrif á ellilífeyri. Þannig var skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna lækkað úr 67% í 45% árið 2003 og síðan aftur í tæp 40% um síðustu áramót.

Traust og stöðugt lífeyriskerfi
Íslendingar búa við eitt traustasta og stöðugasta lífeyrissjóðskerfi í heiminum. Það er gríðarlega þýðingarmikið og ólíku saman að jafna við stöðuna hjá mörgum þjóðum sem sitja uppi með gjaldþrota kerfi. Þetta kerfi hefur byggst upp síðustu 30-40 árin og vægi þess í lífeyrisgreiðslum landsmanna hefur sífellt farið vaxandi. Þær kynslóðir sem greiða núna í lífeyrissjóði munu hafa byggt upp umtalsverð réttindi þegar að starfslokum kemur. Það er til marks um styrk íslenska lífeyrissjóðakerfisins að samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna nema samkvæmt síðustu tölum meira en 130% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall er með því hæsta sem þekkist og t.d. mun hærra en hjá Norðmönnum sem hafa þó olíusjóðinn sem var m.a. byggður upp til að mæta auknum útgjöldum vegna fjölgunar ellilífeyrisþega á næstu áratugum.

Komið enn frekar til móts við óskir eldri borgara

Í ljósi sterkrar stöðu ríkissjóðs er unnt að ganga lengra í að koma til móts við óskir eldri borgara, sérstaklega þann hóp eldri borgara sem stendur höllustum fæti. Ennfremur viljum við veita þeim sem þess óska svigrúm til að vinna lengur með því að draga úr skerðingum. Þannig vill Sjálfstæðisflokkurinn að:

Almennar skerðingar í almannatryggingakerfinu lækki úr tæpum 40% í 35% og að skerðingar vegna lífeyrisgreiðslna verði endurskoðaðar.
Bæta kjör þeirra ellilífeyrisþega sem verst eru settir fjárhagslega um því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum að lágmarki 25.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði til hliðar við greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Tryggja að eldri borgarar sem vilja og geta tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin
Að í boði séu mismunandi þjónustukostir til að mæta einstaklingsbundnum þörfum en í því skyni verði meðal annars leitað samstarfs við sjálfstæða aðila, t.d. hjúkrunarheimili og í heimaþjónustu og heimahjúkrun.
Leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu við eldri borgara
Opna möguleika á eigin fjármögnun eldri borgara á húsnæði sínu á hjúkrunarheimili.
Færa þau málefni aldraðra sem hafa verið á hendi ríkisins yfir til sveitarfélaganna og efla heimaþjónustu við aldraða meðal annars með samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu
Að eftirlifandi maki/sambúðarmaki haldi við fráfall ellilífeyrisþega óskertum lífeyri hins látna í 6 mánuði sem skerðast þá í áföngum og falli niður að 12 mánuðum liðnum.

kv.
Dísin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl aftur ;)

Þessi pistill hjá þér er betri en sá síðasti, en betur má en duga skal.

Þú nefnir: Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að tryggja að aldraðir búi við góð lífskjör. Hér hefur verið byggt upp traust lífeyrissjóðakerfi og öllum tryggður ellilífeyrir.

Rétt er það, lífeyrissjóðskerfið er mjög sterkt hér á landi eins og staðan er í dag. Vandamál annarra þjóða eru í raun, ekki farin að birtast hér á landi, þ.e. aldurssamsetning þjóðarinnar er okkur hagstæð, við erum ung þjóð, ólíkt Bretum og öðrum löndum í Evrópu sem glíma við þennan vanda. Mig minnir að Einar Mar hafi sagt að það sem Evrópa þyrfti, væri svona c.a. eitt stríð, og þá myndi þessi munur jafnast út. (Engin meining í þessum orðum).

Það er líka rétt sem þú nefnir að kaupmáttur hefur aukist, mig minnir að hann sé 1% um þessar mundir. Þú nefnir einnig að lífeyrir aldraðra hafi skerst (stafs) í tíð síðustu vinstri stjórnar: Ég skal benda þér á tvo hluti, jafnvel þrjá sem hafa verið skertir í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fyrst ber að nefna Persónuafsláttinn - Ef hann hefði hækkað í takt við launaþróun, þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp, en ekki setið eftir eins og gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnarinnar þá væri staðan önnur og betri í dag. Núna er persónuafslátturinn um 355 þús. kr. á ári en ef hann hefði fylgt verðlagi væri hann ekki lægri en 420 þús. kr. (Talan gæti verið hærri). Þannig að munurinn þarna í milli er að minnsta kosti 65 þús. kr. á ári, eða rúmar 5400 kr. á mánuði.  Þetta þarf að bæta. Barnabæturnar hafa sömuleiðis verið skertar, sem og vaxtabæturnar. Stimpilgjöld á lánum þarf síðan að fella út, en þau eru reiknuð sem 1,5% skattur á sérhvert skuldabréfalán sem stofnað er til.

Þú talar um lífeyrir aldraðra. Það er auðvitað bara jákvætt að dregið hafi verið úr tekjuskerðingu og tengingu við tekjur maka. Hins vegar hefði frítekjumarkið mátt vera hærra. Annað sem mér finnst skjóta skökku við, er skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna. Ég fæ ekki með nokkru móti séð, hvað ríkið græðir á þessu. Hins vegar eru kostirnir við að fella skerðinguna út, ótvíræðir. Aukinn hvati fyrir fólk að vinna, sem leiðir af sér hærri skatttekjur fyrir ríkið. Þetta fyrirkomulag ætti síðan líka að gilda fyrir um öryrkjana, en það kerfi þarf að taka til endurskoðunar, líkt og áætlanir eru um.

Það þarf líka að endurskoða fjármagnstekjuskattinn/fjármunatekjuskattinn (10%), með hliðsjón af þeim sem lifa á innistæðum í banka, sem eru u.þ.b. 2.200 talsins, en nýta sér þjónustu sveitarfélaga eins og hinn almenni launþegi. Þessir einstaklingar eiga að reikna sér laun, en gera það ekki. Þeir nýta sér þjóðfélagsgæði, án þess að þurfa að greiða fyrir þau. (free rider).

Nefskatturinn á RUV ohf er síðan annað mál sem ég er mjög ósáttur með. Lög um Ríkisútvarpið ohf: http://www.althingi.is/altext/133/s/0773.html

Í fyrsta lið 11.greinar um tekjur Ríkisútvarpsins stendur: Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 14.580 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Breytingarnar sem hafa orðið á Ríkisútvarpinu eru góðar, að nefskattinum undanskildum. Ég er jafnvel á þeirri skoðun að selja eigi Ríkisútvarpið og hætta þar með þessari forræðishyggju.

Er annars sammála þér að færa þurfi málefni aldraða yfir til sveitarfélaganna. Varðandi heimaþjónustuna og heimahjúkrunina, þá kynnti ég mér málið fyrir áramót og þar er þörf á miklum úrbótum. Það þarf að stórefla þjónustuna og gera hana sveigjanlegri.

Bið að heilsa í bili, með kv. Jón Óðinn

Nonni (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 12:19

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband