Misvísandi kannanir

Jæja gott fólk það er gott sem komið að því.. það er örstutt í kosningar og allir að reyna gera það sem þeir geta til að fá fólk til að kjósa ,,sig" eða sinn flokk.
Líkur eru á því að vinstri stjórn komist á og hvort sem það verður hið margumrædda ,,kaffibandalag" sem inniheldur xV,xS og xF eða hvort að það verði fjórir flokkar sem verða með örlög okkar í hendi sér ef Ómar kemst inn er enn óljóst og mun ekki ráðast fyrr en síðustu tölur koma inn.
Maður er nú samt búin að heyra misjafnar skoðanir frá jafnaðarmönnum hvort að þeir vilji yfir höfuð fara í samstarf með xV .

En ætli maður verði ekki bara að koma inn á það sem xD hefur gert gott á meðan flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn - það er gott að hafa vissar staðreyndir í huga þegar gengið er til kosninga á morgun og vil ég benda fólki á að ef eitthvað af þessum loforðum sem andstaðan hefur gefið upp undanfarið verða að veruleika þá er það vegna þess hve góð staða ríkissjóðs er og það er núverandi stjórn að þakka.

- Tekjuskattur einstaklinga hefur verið lækkaður úr 33,15% árið 1995 í 22,75% í ár, sem er lækkun um 10,4 prósentustig.

- Eignarskattur einstaklinga, sem nam 1,45% af hreinni eign 1995, hefur nú verið felldur niður. Þetta kemur sér ekki hvað síst vel fyrir ellilífeyrisþega.

- Sérstakur tekjuskattur, oft ranglega nefndur hátekjuskattur en var í reynd skattur á millitekjur, hefur verið felldur niður, en hann var 5% árið 1995.

- Persónuafsláttur hjóna hefur nú verið gerður að fullu millifæranlegur í stað þess að vera 80% millifæranlegur 1995.

- Veruleg hækkun skattleysismarka, úr rúmum 58 þúsund krónum árið 1995 í 90 þúsund krónur í ár.

- Skattfrjálst lífeyrisiðgjald hefur farið úr 1,5% 1995 í 8% í dag.

- Barnabætur hafa einnig verið hækkaðar verulega á undanförnum árum. Ótekjutengdar barnabætur námu rétt rúmum 30 þúsund krónum árið 1995 en eru 56 þúsund krónur í ár. Skerðingarmörk barnabóta hafa hækkað um 96% frá árinu 1995 og skerðingarhlutfall hefur verið lækkað. Einnig verða í ár teknar upp greiðslur barnabóta til foreldra 16 og 17 ára barna.

- Lækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 14% í 7%.

- Niðurfelling vörugjalda af matvælum.

- 40% lækkun tolla af innfluttum kjötvörum.

- Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu lækkaður úr 24,5% í 7%.

- Tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%.

Allt þetta hefur komið einstaklingnum vel og auk þess að hafa gert líf almennings bærilegra þá hefur flokkurinn gert góða hluti í heilbrigðismálum þó svo að alltaf sé hægt að gera betur - en það er bara staðreynd að það er alltaf eitthvað sem má laga.
Menntun landsmanna hefur stóraukist á síðustu árum og hefur komið Íslendingum í sterka stöðu út á hinum alþjóðlega markaði - þar sem mörg lönd og fyrirtæki leitast eftir vel menntuðu fólki frá Íslandi.

Horfum á alla þessu góðu hluti sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fært okkur þegar við förum inn í kjörklefann á morgun og hugsum til þess hvað það er sem við erum að kjósa yfir okkur ef við veljum þá leið að ,,prófa" eitthvað nýtt.


mbl.is Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband